Stofnskrá og lög félagsins EMBLUR – félags MBA kvenna frá Háskólanum í Reykjavík


I. Kafli – Félagið og aðsetur
1.gr.
EMBLUR er félag MBA kvenna frá Háskólanum í Reykjavík. Aðsetur félagsins er í Reykjavík.
2. gr.
EMBLUR eru frjáls félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

II. Kafli- Hlutverk og markmið
3. gr.
Markmið félagsins er:
– Að efla MBA konur sem leiðtoga
– Að auka veg og virðingu MBA kvenna frá Háskólanum í Reykjavík.
– Að efla tengslanet MBA kvenna úr HR og standa vörð um sameiginlega hagsmuni þeirra.
– Að hafa menntun og fræðslu að leiðarljósi.
– Að bjóða upp á áhugaverð námskeið, fyrirlestra og ráðstefnur.
– Að skapa meðlimum tækifæri til að hittast og gera sér glaðan dag.

III. Kafli – Félagsaðild
4. gr.
Félagsmaður getur hver sú kona orðið sem hlotið hefur MBA prófgráðu frá Háskólanum í Reykjavík og konur sem stunda MBA nám við Háskólann í Reykjavík.
5. gr.
Stjórn félagsins leggur til á aðalfundi félagsgjöld næsta árs. (Stjórn félagsins ákveður félagsgjöld hverju sinni í upphafi starfsárs). Markmið félagsgjalda er að standa straum af þeim kostnaði sem fellur til auk þess að greiða niður viðburði á vegum félagsins.
6. gr.
Stjórn félagsins getur útnefnt heiðursfélaga, einstaklinga sem leyst hafa af hendi mikilsverð störf fyrir félagið.
7. gr.
Stjórn félagsins getur vikið félagsmanni úr félaginu ef henni þykja efni standa til, en hann getur borið mál sitt undir almennan félagsfund.

IV. Kafli- Aðalfundur
8. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn einu sinni á ári í apríl og maí. Aðalfund skal boða skriflega með bréfi eða með tölvupósti a.mk. einni viku fyrir fund, eða auglýsa á annan tryggilegan hátt ásamt lagabreytingartillögum, sbr. 14. gr. Tilkynningar til stjórnar um áhuga á stjórnarsetu – ef fram eru komnar – skulu fylgja fundarboði.
9. gr.
Allir skuldlausir félagsmenn eru kjörgengir.
Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað. Allir félagsmenn geta borið upp mál til atkvæðagreiðslu á aðalfundi. Til að mál nái fram að ganga þarf samþykki hreins meirihluta (50% atkvæða + 1) nema annars sé getið í lögum félagsins. Atkvæðisrétt hafa allir skuldlausir félagsmenn.
10. gr.
Eftirfarandi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:
1. Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári.
2. Reikningar síðastliðins árs lagðir fram til samþykktar
3. Lagabreytingar.
4. Kosning stjórnar.
5. Kosning endurskoðanda eða skoðunarmanns.
6. Önnur mál.

V. Kafli- Stjórn
11. gr.
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda og sér um að framfylgja samþykktum aðalfundar og lögum félagsins. Stjórn félagsins skal skipuð sjö manns fyrsta starfsárið; en hægt er að endurskoða það á aðalfundi. Stjórn skal kosin ár hvert á aðalfundi félagsins. Stjórn félagsins samanstendur af eftirfarandi embættum: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórendur. ( Tveir framkvæmdastjórar, gjaldkeri, upplýsingafulltrúi og þrír verkefnisstjórar). Kosningar skulu vera skriflegar sé þess óskað.

VI. Kafli- Fjármál
12. gr.
Reikningsár félagsins skal vera frá 1. apríl – 31 mars. Reikninga félagsins skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar. Formaður og gjaldkeri hafa prókúru á reikninga félagsins. Gjaldkeri félagsins heldur utan um bókhaldið, hefur eftirlit með fjármálum félagsins og gengur frá ársuppgjöri. Reikninga félagsins skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar.
13. gr.
Á aðalfundi skal kjósa endurskoðanda eða skoðunarmann.
14.gr,
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins, öðrum en þeim sem aðalfundur ákveður, með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Gerðir stjórnarinnar skulu bókaðar.

VII. Kafli- Slit
15.gr,
Félaginu EMBLUR verður ekki slitið nema á aðalfundi og þá aðeins að 4/5 atkvæðisbærra félagsmanna samþykki þá ráðstöfun. Við félagsslit skal skipa 3 fulltrúa í sérstaka skilanefnd og eru framkvæmdastjórar jafnframt formenn skilanefndar. Við slit renna fjármunir félagsins skulu renna til MBA deildar Háskólans í Reykjavík.

VIII. Kafli- Lagabreytingar og gildistaka
16.gr,
Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins og skal í fundarboði geta þeirra breytinga sem bera á upp. Til þess að lagabreytingar nái fram að ganga þarf 2/3 greiddra atkvæða.
17.gr,
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á stofnfundi félagsins EMBLUR, Reykjavík 9. október 2007:

Auður Einarsdóttir, MBA 2007
Bryndís Emilsdóttir, MBA 2008
Esther Finnbogadóttir, MBA 2007
Margrét Hlöðversdóttir, MBA 2007
Selma Árnadóttir, MBA 2008
Sólveig Lilja Einarsdóttir, MBA 2008